Yfir og allt um kring
Myndlistarsýning 30.03-26.04 2019
,,Ég hef í verkum mínum haft tilhneigingu til að blása nýju lífi í ýmis efni og hluti sem áður þjónuðu einhverjum hagkvæmum og nytsömum tilgangi. Eftir að hlutirnir lenda í klónum á mér þá bíður þeirra allt annar veruleiki - allt annað hlutverk. Ég nota nytjahluti, byggingarefni, textil og allskyns mjúk og hörð efni sem til falla og finna má í nánasta umhverfi mínu. Þannig má segja að hráefnið sem ég nota í verkin séu hlutar eða kaflar úr mínu eigin lífi eða sögu. Það er hægt að skilgreina þetta hráefni sem afgangs efni eða hversdagslega hluti. Með því að nota gjörólík efni við samsetningu þrívíðra verka leitast ég eftir að ná fram ákveðinni spennu, en einnig samruna tveggja ólíkra þátta sem alltaf hefur heillað mig í lífinu og listum. Mannlegt eðli virðist ganga mikið út á að finna stöðugt nýjar leiðir og markmið út frá gömlum grunni - að halda áfram. Þráðurinn sem hefur nánast alltaf komið fram í verkum mínum, allt aftur til skólaáranna, er tekinn upp aftur og aftur með mismundandi áherslum og í misjöfnum sverleikum og gerðum.
25. mars 2019 Þórdís Alda