Íslands þúsund ár (1998) var verk Þórdísar Öldu á fyrri Strandlengjusýningunni sem haldin var á vegum Myndhöggvarafélagsins í Reykjavík . Við Ægissíðuna myndaði Þórdís varnargarð úr hvítum segldúkspokum sem voru fylltir af sandi. Hver poki var merktur orðunum ,,Íslands þúsund ár”. Í verkinu er komið inn á þjóðerniskennd og náttúruöflin en einnig bregður rómantíkinni fyrir þar sem vitnað er beint í íslenska þjóðsönginn og áletrað blóm er að finna á hverjum hinna 365 poka. ,,Eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár ’’. Vísar verkið, í þrengri merkingu, til landvarna, gróðurvarna, skjólgarða og flóðvarna. Til að sporna gegn vánni þarf að yrkja jörðina, hugsa um hana og temja sér ákveðið hugafar. Einnig má sjá samspil þess harða og mjúka í verkinu, þar sem haf og land mætast. Þarna kemur fram samspil ólíkra efna eins og svo oft áður í verkum Þórdísar Öldu. Verkinu var ekki ætlað að endast, það var gert úr segldúkum og sandi, og vildi Þórdís láta verkið veðrast, til að sýna fram á kraft náttúrunnar. Saltið í sjónum, vindarnir, og regnið, sáu til þess að pokanir rifnuðu og lögðu áherslu á það, að alveg sama hvað maðurinn gerir, þá mun hann aldrei geta tamið náttúruna að eilífu, hann getur einungis lært að lesa hana og spila með henni um stund.
Guðrún Árnadóttir